Hugleiðing um hagstjórn.

 Lengi hafa Íslendingar verið áhugasamir um frjálsa samkeppni til að tryggja lágt verðlag á nauðþurftum, allt þar til kemur að verði á húsakosti. þá snúa þeir blaðinu við og hafa ístórum stíl úthýst sjálfum sér með okri, og finnst það fínt. Þegar ríkið kom sér undan veigamiklum samfélagsverkefnum og kom þeim á sveitarfélögin án tekjustofna, urðu fasteignagjöld með helstu tekjustofnum samfélagsins.

Þau eru látin miðast við markaðsverð, þannig að hátt fasteignaverð er orðið að keppikefli sveitarfélaganna. Því meira okur á þessum nauðþurftum, því hærri tekjur fyrir sveitir og borg. Um þetta er pólitísk samstaða og virðist ráðast af væntumþykju við almenning, því viðbrögð vegna fyrirsjáanlegrar lækkunar fasteignaverðs eru eins og búist sé við náttúruhamförum. Talsmenn fasteignasala, Íbúðarlánasjóðs og banka tala um björgunaraðgerðir eins og þjóðinni hafi verið stefnt í voða.

Á sínum tíma setti R- listinn lóðaskort í Reykjavík á uppboð og lóðaverð rauk í himinhæðir. Þetta hækkaði um leið fasteignaverð á öllu höfuðborgarsvæðinu, og fólkið lagði á flótta. - Suður með sjó, austur fyrir fjall og Guð má vita hvert. Flóttafólk fasteigna-okursins ekur svo á kaupleigu bílum til höfuðborgarinnar í vinnu á hverjum degi. Þúsundir arðlausra ársverka fara í akstur með tilheyrandi sóun, mengun og mannfórnum, því tugir farast á þessum ferðalögum, - og nú heimta menn breiðari vegi.

Samfélagsþarfa sem áður var aflað með sköttum er nú tekið gegnum fasteigna okur, fjármagnað með verðtryggðum langtímalánum sem nema sem næst fullu matsverði eigna og eru því oft langt umfram almenn fjárhagsleg þolmörk. Með einkavæðingu ríkisbankanna opnuðust flóðgáttir lánsfjár og eins og þyrsta úlfalda í hita eyðimerkur, þyrsti þjóðina í peninga sem hún gat nú fengið að vild, og hún drekkti sér í skuldum. Hið fullkomna góðæri var komið.

Þetta fé hafa bankarnir að mestu fengið á erlendum skammtímalánum sem nú eru að koma þeim í vandræði, sem aftur verður komið yfir á almenning. Lýðurinn fær svo hæstu vexti í heimi í kaupbæti og verðtryggingu að auki. Þetta fjármagn ber svo uppi stóran hluta hagkerfisins. - Þetta heitir hagstjórn.

Þar sem fasteignaverð fer nú lækkandi þannig að upphæðir tekinna húsnæðislána geta orðið hærri en matsverð, vakna spurningar um verðtryggingu. Hún er eingöngu á íslensku krónunni en ætti að réttu að vera á veðinu líka, þannig að falli veðsett húseign í verði, lækkilánið að sama skapi. Bankarnir tóku ákvörðun um lánveitingar með þessum viðmiðunum og bera því ábyrgð á henni og eiga að taka afleiðinum gerða sinna eins og aðrir ef illa fer.

Allur þessi veruleiki á rót sína í stjórnarstefnu tíunda áratugarins. Hún er gjaldþrota. Hið ábyrðarlausa lána drifna „góðæri" er á enda og fráhvarfið er framundan. Fyrir liggur, að vextir og verðlag mun hækka, vinna dragast saman og skylmingar um launamál munu fara af stað. Kaldhæðnislegast er þó, að nú reynir sá mest að hemja þetta lánasukk sem hratt því af stað fyrir rúmum hálfum öðrum áratug.

En, eitt má ekki klikka, við verðum að koma bönkunum til hjálpar. Aldrei bregðumst við þeim semdeila kjörum með alþýðunni. Ó - nei, við látum það ekkigerast. Enda öruggt að í nýrri þjóðarsátt verða bankarnir með.

Ámundi Loftsson.

Birt í Mbl. í apríl 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband