Áskorun á Lilju Mósesdóttur

Sæl Lilja og ágætu VG félagar.

Þegar áföll dynja á okkur mönnunum kemur í ljós hvers við erum megnugir.  Þetta þekkjum við Íslendingar.  Sambúð okkar við óvægin náttúruöfl hefur alltaf þjappað okkur saman og öll höfum við lagt metnað okkar í að létta hvert öðru róðurinn gegnum þá erfiðleika sem á okkur hafa dunið, þar til nú.  Nú er öldin önnur.

Við bankahrunið 2008 þjappaði þjóðin sér saman og hrakti með friðsömum hætti frá völdum ríkisstjórn sem öðru fremur bar pólitíska ábyrgð á þeirri stöðu sem upp var komin.

Krafan um uppgjör við þann blekkingaleik sem komið hafði okkur í mesta vanda sem á okkur hefur dunið bergmálaði um allt samfélagið.  Einnig krafan um að leiðrétta þær ósanngjörnu og þungbæru afleiðingar sem hrunið hafði í för með sér fyrir almenning og að fyrirbyggja að sagan endurtæki sig.

Í grein sem Kári Þorgrímsson í Garði í Mývatnssveit skrifaði skömmu eftir hrunið kemst hann svo að orði  „Menntunarstig Íslendinga er miklu hærra en svo að þeim hafi ekki mátt ljóst vera hvað leiða myndi af einkavæðingu bankanna, ofurvöxtum eða aðild landsins af frjálsu flæði fjármagns milli landa svo dæmi séu tekin. Gjaldþrotið og stærð þess er afleiðing slíkra ákvarðana.  Kreppan er hagkerfið sjálft."

Og nú tóku flokkar alþýðunnar við völdum á Íslandi og væntingar til þeirra voru miklar.   Víglína búsáhaldabyltingarinnar var gjáin milli þings og þjóðar, almennings á Íslandi og þeirra sem með völdin höfðu farið.  Þessari gjá skildi nú eytt og teknir upp breyttir stjórnarhættir, byggðir á nýju gildismati.

Nú rúmlega tveim árum síðar situr þjóðin í myrkri lyga, svika og blekkinga.  Í stað þess að standa með fólkinu í þeim erfiðleikum sem af hruninu leiddi hefur ríkistjórn Íslands, ríkisstjórn alþýðunnar, félagshyggjufólksins og launþeganna á Íslandi bundið fyrir augu og eyru og gengið peningaöflum á hönd, ekki bara hér á Íslandi, heldur hvar sem þau er að finna.  Ef það er afrakstur byltingarinnar var verr í hana farið en heima setið.

Í stjórnatíð okkar hafa fleiri misst aleigu sína en nokkru sinni fyrr.  Þar hafa sýslumenn dyggilega gengið erinda óvæginna bankastofnana með þegjandi samþykki ríkisstjórnarinnar og fengið smámennsku sinni og valdafíkn fullnægt með þeirri áníðslu að selja húseignir ofan af því fólki sem hefur verið svikið um sjálfsagða leiðréttingu mála sinna.  Aldrei hafa fleiri þurft að leita ásjár hjálparstofnana  í neyð sinni en nú.  Áratugir eru síðan heyrist hefur talað um sult á Íslandi þar til nú, í stjórnartíð okkar, að fólk í landinu okkar hafi ekki nóg að borða og aldrei hefur nokkur ríkisstjórn á Íslandi orðið jafn gersamlega viðskila við þjóðina og sú sem nú er við völd.  Er þetta sú ríkisstjórn sem við vildum og það  Ísland sem við ágætu félagar í V G viljum láta kenna okkur við?  Hver ertu þá, félagi minn í V G?  Þá þekki ég þig ekki.

Ég beini því orðum mínum til félaga í Vinstri hreyfingunni grænu framboði sem illa eru ósáttir við störf eða öllu heldur aðgerðaleysi þeirrar ríkisstjórnar sem við öðrum fremur berum ábyrgð á og einnig hinna sem yfirgefið hafa flokk okkar.  Við eigum leik.  Svo vel vill til að í okkar röðum er fólk sem ekki lætur villa sér sýn og afvegaleiða sig. Þú, Lilja Mósesdóttir ferð þar fremst meðal jafningja.  Aldrei hefur samstaða þín með fólkinu í landinu bilað.  Alltaf ertu trú samvisku þinni og talar máli alþýðunnar um hvað nauðsynlegt og unnt er að gera til að leiðrétta og lágmarka þann skaða sem almenningur varð fyrir í hruninu.

Lilja og ágætu VG félagar: Komið aftur.  Mætum öll á landsfund VG á Akureyri nú í haust og gerum Lilju Mósesdóttur að foringja okkar og leiðtoga og mörkum um leið skýra pólitíska stefnu fyrir fólkið í landinu okkar.  Taktu þessari áskorun Lilja og gefðu kost á þér að leiða samtök okkar.  Annars munu þau liðast sundur og verða áhrifalaus íslensku samfélagi.  Það er niðurstaða sem við getum ekki sætt okkur við.  Gerðu upp hug þinn félagi.

 

Nesjavöllum í lok sumars 2011, Ámundi Loftsson.

 


Af því að mér þykir vænt um þig Steingrímur...Opið bréf til fjármálaráðherra

Sæll Steingrímur!

Einsog þú veist hef ég þann djöful að draga að skipta mér af nánast öllu í mannlegu samfélagi.  Svo er Guði þó fyrir að þakka að þetta er kvilli sem þú ert blessunarlega laus við.  Ástæðu þess að ég sendi þér þessar línur er að rekja til þess að Ríkisendurskoðun sendi mér áminningu um að ég gerði grein fyrir útlögðum kostnaði vegna þess uppátækis að ég bauð mig fram til stjórnlagaþings.  Flónið ég gekk sem sagt með þær grillur að ég gæti lagt eitthvað til þeirra mála að gera stjórnarfarið í landinu betra.  Löngum verið vitlaus.

Þar sem allur heimurinn veit að þessar kosningar mistókust og voru dæmdar ólöglegar getur sá eini tilgangur vakað fyrir Ríkisendurskoðun að reyna að henda reiður á hvað frambjóðendur lögðu í mikinn kostnað í þessa ósvinnu svo unnt verði að endurgreiða þeim það sem þeim réttilega ber.  Enginn fer vísvitandi út ólögmætar kosningar.

Við þessa eftirgrennslan Ríkisendurskoðunar rifjaðist svo upp fyrir mér nokkuð sem upp kom þegar þú varst landbúnaðarráðherra, en það var sú tæra snilld þín að láta lögregluna telja allan búsmala í landinu.  Nú skyldi mönnum haldið við efnið, ekkert svindl, engin undanbrögð, þú varst kominn.Andrés heitinn á Kvíabekk í Ólafsfirði sendi þér opið bréf sem birt var í dagblaðinu Degi á Akureyri á vordögum 1989 og lofaði mjög þessa stjórnvisku þína.  Andrés var magnaður náungi, skemmtilegur penni og annálaður hestamaður.  Alltaf koma hendingarnar upp í hugann þegar Andrés á Bekk rekur á fjörur minninganna þar sem Einar Ben kveður um hvarf séra Odds.

Hleypir skeiði hörðu

halur yfir ísa

glymja járn við jörðu

jakar í spori rísa.

Hátt slær nösum hvæstum

hestur í veðri geystu.

Gjósta af hjalli hæstum

hvín í faxi reistu.

Þeir sem lesa vilja bréf Andrésar geta séð það hérna.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=208144&pageId=2687065&lang=is&q 

Reyndar man ég nú ekki lengur alveg hvað fyrir þér vakti með þessari talningu á búfénu í landinu Steingrímur og mættum við alveg rifja það upp við tækifæri.  Þó man ég að einhverjir leiðindapúkar höfðu uppi lítt grunduð hnjóðsyrði um þig út af þessu og þó óþarfi sé, tek ég fram að ég var ekki í þeim hópi.

Já Steingrímur nú ertu loksins kominn í ríkisstjórn aftur eftir um tveggja áratuga heimssögulega óstjórn verstu spillingarafla íslandssögunnar.  Tími var til.  Alltaf er þó sama fýlan í mannskapnum og meira að segja ég er ófáanlegur til að samþykkja að þjóðin borgi icesave.  Að mínu viti er þetta óupplýst sakamál sem þarf að komast til botns í áður en það verður gert upp.  Svona er ég vitlaus.  Verst ef elskan hún Svandís okkar geldur fyrir frumhlaup föður síns í þessu andstyggðarmáli. 

En af því að ég minnist hér aðeins á hann Svavar okkar, þá er mér alltaf svo minnisstætt þegar þið tveir komuð í hlaðið á gamla bænum mínum norður í landi fyrir um aldarfjórðungi til að heilsa uppá aldraðan tengdaföður minn.  Þetta er í raun eini sólskinsdagurinn í minningu minni um búskapartíð mína í Þingeyjarsýslu.

Ég hitti gamla konu um daginn Steingrímur sem sagði mér að sá dagur nálgaðist að hún gæti ekki borgað húsaleiguna sína.  Ævisparnaðurinn yrði uppurinn fyrir mitt sumar og hún vissi ekki hvernig hún ætti að fara að.  Þrátt fyrir að hún er af virtum embættismannaættum var á henni kvíðasvipur.  Ekki gat ég annað sagt henni en að kvíða ekki neinu, við byggjum við það sem kallað er „norræn velferð" og í henni væri okkur öllum borgið.  Samt var gamla konan tortryggin og úr svip hennar mátti ráða að ég hefði ekki verið alveg hreinskilinn við hana.  Mér var nú reyndar hugsað hvað hún hefði við sparnað að gera komin að níræðu.  En svona getur fólk nú látið. 

Ég borða stundum hjá veitingamanni sem selur hversdagslegan mat í hádeginu og rekur auk þess veisluþjónustu. Þetta eru aðallega erfidrykkjur, því svo blessunarlega vill til að allir deyja á endanum og sumir meira að segja full seint.  Halldór Laxness segir á einum stað frá konu sem gekk svo illa að deyja að á endanum varð að hvolfa yfir hana potti, en þetta er nú útúrdúr.  En, sem sagt, hann vinur minn sem ég borða stundum hjá í hádeginu segir mér að þessi rekstur sé að verða búinn að éta upp allar hans eigur, húsið, þokkalegan bíl, hann er á hálfgerðum skrjóð núna,  hann er búinn að segja upp starfsfólkinu að mestu, sem nú er komið á bætur hjá ykkur Jóhönnu og vinnur svo sjálfur milli 60 og 80 tíma á viku.  En þetta er ekki allt Steingrímur.  Maturinn hjá honum er svo dýr að ég get ekki borgað hann og félagar mínir ekki heldur.  Hann kostar 1400 krónur.  Þetta er uppundir 30 þúsund á mánuði á virkum dögum, bara fyrir hádegismat. 

Þegar ég fór svo að pumpa kallinn um hvað réði, fór hann strax að kvarta undan þér.  Bölvað meinhornið.  Það væru skattar og vextir og svo væri hráefnið líka alveg ferlaga dýrt.  Ég féll strax í meðvirkni bara til að gera honum til geðs og fór  að þusa um búvöruna.  Hélt því fram að þriðja hver króna í búvöruverði væri bein afleiðing af kvótakerfinu.  Bændur væru búnir að kaupa kvóta svo dýru verði að nær allur ríkisstuðningurinn við landbúnaðinn færi í þetta.  Sama væri með fiskinn uppistaðan í verði á fiski væri vegna kaupa á veiðiheimildum.  Þetta væri auk þess meira og minn allt í skuld og væri því lítið annað en beinn fjármagnskostnaður.  Nú væri þetta búið að éta af veitingamanninum vini mínum allar hans eigur, hneppa hann í þrældóm og gera matinn svo dýran að enginn gæti keypt hann.  Svona geta menn verið vitlausir Steingrímur. 

Hann Jón Bjarnason ráðherra er lunkinn karl sem hefur áttirnar.  Ég bíð spenntur eftir ráðum hans um kvótakerfin.  Hann ætlar að banna bændunum vestur í Dölum að selja mjólk utan kvóta.  Mikið helvíti er kallinn klár.  Hitt er enn útí þokunni hvernig hann tæklar fiskveiðikvótann.  Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af Jóni,  hann kemur örugglega standandi niður úr öllu þessu með eitthvað gott.  Vertu sko alveg viss.  

Svo gerðist eitt um daginn Steingrímur sem ég hika þó aðeins við að segja þér frá.  Það blundar nefnilega í mér einhver óhræsis púki.  Í syndsamlegu hugarfari fór ég að eiga samskipti við fólk á einkamal.is og sannaðist þá það sem gamall bóndi austur í sveitum sagði einu sinni „ að það er margur sauður í mörgu fé" Ja sussubía.  Ég segi þér kannski einhvertíma meira af því undir fjögur augu.  En þarna vissi ég ekki fyrr en ég var kominn í samband við einstæða móður sem var búin að fara með öll sín fjárhagsvandræði til umboðsmanns skuldara.  Þar rakti hún allar sínar fjárhagsaðstæður.  Þetta er hófsöm kona og lifir spart.  Hún fékk þó ekki betri úrlausn sinna mála en svo að þarna var hún komin til að freista þess að ná endum saman, sem sagt inná einkamal.is. 

Mér leið svo illa með þetta í byrjun Steingrímur að ég fékk kökk í hálsinn og ég fór að reyna að ná í vinkonur okkar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði til að fá hjá þeim ráð um samskipti mín við þessa konu og hvað við gætum lagt henni gott til mála til að líf hennar yrði alla vega ekki lakara en okkar.  En nú brugðust krosstrén, þarna urðu stóru vonbrigðin.  Það mátti engin þeirra vera að því að tala um þetta við mig utan ein úr Hafnarfirði.  Hún er vinur minn.  Mikið er nú veröldin yndisleg Steingrímur.  Finnst þér ekki? 

Ég fer nú að stytta mál mitt í þessu bréfi enda er ég alveg rólegur því að ég veit að þú ert á réttri leið í úrlausn allra mála.  Það eru bara ekki nógu margir sem koma auga á hvað þú ert mikið séní.  En við því er lítið að gera, þetta rennur upp fyrir þeim einn daginn.  Með einu get ég þó glatt þig svona alveg í blálokin.  Ég er kominn til að vera í Vinstri grænum.  Þar mun ég ekki svíkja þig Steingrímur.  Ég lít svo við á kontórnum hjá þér fljótlega þegar þeir hjá Ríkisendurskoðun verða búnir að átta sig á hvað ég á fá mikið endurgreitt út af þessu kosningabulli útaf stjórnlagaþinginu og gríp þessar krónur, ég veit að þær eru þér ekki fastar í hendi.

Nesjavöllum á útáliðnum einmánuði 2011.

Vertu nú best kvaddur, þinn aðdáandi, Ámundi Loftsson.     


Niðurlæging Vinstri grænna

Sú niðurstaða skoðanakönnunar að átta af hverjum tíu félögum í VG hyggist styðja icesave-samninginn er ný opinberun. Stjórnmálaflokkur sem reistur er á stuðlabergi félagshyggju og verkalýðsbaráttu, talið sig vera sverð og skjöld alþýðunnar gegn fjármagnskúgun auðhyggjunnar liggur í svaðinu.

Í stað þess að rétta hlut þeirra sem illa urðu úti í hruni nýfrjálshyggjunnar og treysta hið félagslega öryggisnet þeirra sem lakast standa gengur nær allur þessi flokkur erinda fjármagnsins.

Skattfé okkar er ausið inní sundurliðað, ofvaxið og uppétið banka- og sparisjóðakerfi sem síðan á að halda uppi með okurvöxtum á fólkinu í landinu.  Á sama tíma er allt okkar samfélag sett undir helfrosinn niðurskurð. Flokkur verkalýðsbaráttu og alþýðufólksins á Íslandi hefur ekki áttirnar.

Ágætu félagar og vinir í Vinstri hreyfingunni grænu framboði:  Eru þið gengnir af vitinu?   Er þetta okkar pólitík? Fengum við ekki verkefnið að endurmóta og endurreisa Ísland?  Er þetta leiðin?  Ætlum við að láta telja okkur trú um að þjóðinni beri siðferðisleg skylda til að taka á sig byrgðar icesave-samningsins? Að það sé leiðin að flekklausu orðspori í samfélagi þjóðanna?

Ef þetta er ykkar skoðun ber það vott um ykkar undirgefni og verulega skerta dómgreind og siðferði.  Þá á ég illa heima í ykkar félagsskap.  Hver trúir því að hann bjargi heiðri sínum með því að taka á sig rangar sakir?  Sé þetta raunin hef ég hrapalega misskilið pólitísk markmið Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.  Ég hélt að hún stæði fyrst og fremst fyrir sjálfbæru ábyrgu samfélagi, hagsmunum og félagslegum réttindum alþýðufólks, ekki hagsmunum fjármagnsins.

Icesave-málið er stærsta sakamál frá upphafi sem skekið hefur íslenska þjóð. Með því að borga icesave-samninginn erum við að taka á okkur óupplýstan  glæp.  Stærsta einstaka hluta hrunsins.  Borga spillinguna og græðgina sem við ætluðum að uppræta.

Hvers vegna erum við ekki sjálfum okkur samkvæm og krefjumst réttarhalda Icesave-málinu.  Að gera það er í anda okkar pólitísku vitundar og þeirri stefnu sem við stöndum fyrir.  Við eigum að krefjumst þess að allt icesave-sukkið verði upplýst, í stað þess að láta rétta okkur reikninginn fyrir það óupplýst og án þess að vita hvers vegna?

Forysta VG hefur aldrei viljað taka Icesave-málið til gagngerrar umræðu á vettvangi samtakanna.  Þess vegna set ég hér fram þá kröfu að umræða um það fari nú fram á okkar vettvangi, þar sem allra sjónarmiða verði gætt, ekki bara forystu VG.  Þá geta almennir félagar gert upp hug sinn um hvort þeir vilja láta Steingrím Jóhann Sigfússon leggja Icesave-myllusteininn um háls sér.

Fleira stendur herfilega uppá okkur.  Aldrei hafa fleiri misst aleigu sína og heimili sín en í stjóratíð okkar.  Aldrei hafa fleiri þurft að leita ásjár í neyð sinni við að komast af.  Í fyrst sinn í marga áratugi heyrist talað um sult á Íslandi, að fólk í landinu okkar hafi ekki nóg að borða.  Þetta er hvorki það ísland sem ég vil sjá eða búa í.  Þaðan af síður vera bendlaður við að hafa skapað.  Hér eru verkefnin sem sitja á hakanum, bíða eftir okkur. 

Hvar ertu, ágæti VG félagi?  Ertu kannski ekki lengur í flokknum?  Ertu kannski farinn eins og Karólína Einarsdóttir úr Kókavogi, Eyfirðingurinn Guðbergur Egill Eyjólfsson, Sædís Harðardóttir á Eyrarbakka, Ásmundur Páll Hjaltason á Norðfirði, Sigurlaug Gröndal í Þorlákshöfn, svo einhverjir séu nefndir, allt fólk úr fremstu víglínu okkar og nú síðast öðlingurinn og merkisbóndinn við Djúp, Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn. Enginn úr forystu  VG sá ástæðu til að hafa samband við Indriða og reyna að telja honum hughvarf. Öllum er sama.  Er þér líka sama ágæti VG félagi?  Mér er ekki sama.  Sannleikurinn er sá að við megum engan missa úr okkar röðum. Við höfum það verk að vinna að reisa samfélag á Íslandi.  Varstu búinn að gleyma því? 

Margir hafa dregið upp hreina helgimynd af búsáhaldabyltingunni.  Ríkisstjórn VG og Samfylkingar komst til valda fyrir hennar atbeina.  En ef þetta er afrakstur byltingarinnar var verr í hana farið en heima setið.  Þá hefðum við betur sleppt henni. 

Ágætu félagar og vinir í Vinstri hreyfingunni grænu framboði:  Þið skulið ekki halda að ég skrifi þessar línur af einhverri illkvittni eða vegna þess að mér finnist það gaman, að ég sé að reyna að skemmta Skrattanum.  Ástæðan er sú ein að ég vil vinna íslensku samfélagi gagn en ekki vera meðsekur í þeim aumingjadómi sem flokkur okkar stendur nú fyrir.  Ég er öskureiður, það sýður í mér blóðið. 

Því fylgir ábyrgð að vera í stjórnmálaflokki, að vera í pólitík.  Þar erum við ekki eingöngu drifin af væntingum okkar um betra samfélag eða að okkur langi til að taka þátt í félagsmálum.  Við berum líka ábyrgð á þeim öflum sem ráða í samfélaginu.  Öflum sem hafa völd vegna þess að það vorum við sem léðum þeim traust okkar og trúnað, komum þeim til valda.  Ágætu VG félagar:  Við berum ábyrgð, en erum ekki klappstýrur Steingríms Jóhanns Sigfússonar í hugarspuna hans við að gera sig gildandi í fjármálaheiminum? 

Að endingu ítreka ég við ykkur ágætu félagar:  Ef við ætlum ekki að vera ævarandi aðhlátursefni annarra þjóða og allra hugsandi manna þá fellum við Icesave-samninginn.  Hann er pólitísk og lagaleg uppgjöf og vesaldómur, hagfræðilegt rugl og ber vott um alvarlega siðferðislega veiklun. - Gerðu upp hug þinn félagi.

Á góu 2011, Ámundi Loftsson

 


Fellum Icesavesamninginn

Ríkisstjórn Íslands telur það forgangsverkefni að tryggja hag fjármagnseigenda hvar sem þeir finnast og er icesave-málið skýrasta birtingarmynd þeirrar stefnu.  Forseti Íslands er eina virka viðnámið gegn stefnu þessari.  Steingrímur J. Sigfússon hefur kastað grímunni.  Hann vill að málskotsrétturinn verði tekinn af forsetanum.  Steingrímur höndlar ekki lýðræðið, hann talar skýrt.  Hann vill völd hinna fáu. 

Þjóðin verður að koma frá völdum þeim öflum sem vinna að því einu að hneppa hana í fjötra, örbyrgðar, skulda og fáræðis.  Öflum sem sýna þjóðinni sjónhverfingar til lausnar þeirrar stöðu sem bankahrunið 2008 bakaði skuldugu fólki á Íslandi.  Sífellt kemur fleira fram í dagsljósið sem bendir til þess að Icesave-málið í heild sinni sé fremur sakamál en gjaldþrot.  Þess vegna hlýtur það að vera skýlaus krafa að með það skuli farið eins og venja er um slík mál.

Að íslenskir skattgreiðendur beri tjón sem stjórnendur banka í einkaeigu bökuðu Bretum og Hollendingum eru því viðurlög á hendur almenningi í óupplýstu sakamáli sem hann á ekki aðild að og ber enga ábyrgð á.Icesave-samningurinn á upphaf sitt í neyðarlögunum frá árinu 2008 þar sem bankainnstæður í föllnum bönkum voru tryggðar og fjármagnaðar af almenningi.  Samningurinn er því til kominn vegna þessara innstæðna og ef einhverjir ættu að borga fyrir afleiðingarnar af þessu icesave-ævintýri, væru það þeir sem neyðarlögin björguðu.

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis bendir einnig á að þessi aðgerð hafi fyrst og fremst  verið til að tryggja háar innstæður lítils hluta fjármagnseigenda, peningaelítunnar á Íslandi sem átti bróðurpart innistæðna sem glötuðust við hrunið og ekki hafði verið komið undan.  Icesave-samninginn er ótvíræð pólitísk viðurkenning á að einkarekna bankastarfsemi skuli reka á ábyrgð skattgreiðenda.

Við, íslenskur almenningur, þegnar þjóðfélagsins sættumst því aðeins á að greiða skatta að þeir standi undir útgjöldum af sameiginlegum þörfum okkar. Við greiðum skatta til að halda uppi samfélagi, en ekki ofvöxnu gerspilltu fjármalakerfi.  Það er fullkomið brjálæði og ögrun við heilbrigða skynsemi og siðferði að ráðstafa skattfé okkar á þann hátt sem Icesave-samningurinn gerir ráð fyrir á sama tíma og Landspítalinn, höfuðvígi heilbrigðiskerfis okkar þarf að þiggja ölmusur til að geta sinnt lögboðnum skyldum sínum og öll samneysla okkar, sama hvaða heiti hefur, er skorin niður inn að beini. 

Með samþykki icesave-samningsins yrði einnig innsiglað það aðhalds- og ábyrgðarleysi sem öllu öðru fremur hefur leitt af sér ríkjandi aðstæður í fjármálastarfsemi á Íslandi.  Ruglið héldi óbeislað áfram á ábyrgð og kostnað almennings.  Þess vegna eru réttarhöld í icesave-málinu er það eina sem til greina kemur.  Að því hníga öll rök, jafnt pólitísk, lagaleg, hagfræðileg og siðferðisleg.

 Að bera á borð fyrir okkur, fólkið í landinu að okkur beri siðferðisleg skylda til að taka á okkur rangar sakir og byrgðar þessa samnings til að viðhalda flekklausu orðspori í samfélagi þjóðanna og taka á okkur himinháar fjárskuldbindingar til að greiða okkur leið í enn meiri skuldir, ber vott um verulega skerta dómgreind og brenglaða siðferðisvitund, eru himinhrópandi öfugmæli.  Við eigum sem sagt að taka á okkur rangar sakir til að bjarga heiðri okkar, að óttast svo sannleikann að öllu skuli fórna til að forða því að hann komi í ljós, að rétt niðurstaða fáist.  Er það þjóðfélagsleg reisn?

Er nú ekki kominn tími til að hugsa þetta mál ögn betur? Í stað þess að óttast réttarhöld í þessu máli skulum við krefjast þeirra.  Þá verður það krufið til mergjar og allur sannleikur þess leiddur í ljós.  Þess eigum við að krefjast af heilum hug.  Ein af meginkröfum búsáhaldabyltingar var að upplýsa það sukk sem orsakaði hrunið og að komið yrði höndum í hár þeirra sem ábyrgð bera á þessu mesta klandri í sögu þjóðarinnar.  Fylgjum því eftir og fellum Icesave-samninginn. Birt í Mb.

Laugardaginn 26. feb. 2011    


STJÓRNARSKRÁIN OG FORSETINN

Þegar íslenska stjórnarskráin er lesin og borin saman stjórnarfarið í landinu stingur margt í augu.  Hvað skipan ríkisvaldsins varðar er stjórnarskráin skýr.  Forseti og Alþingi fara saman með löggjafarvaldið en forsetinn ásamt öðrum stjórnvöldum með framkvæmdavaldið.

Skv. stjórnarskránni er löggjafarvaldið þannig í höndum forseta og Alþingis að því aðeins fær forsetinn sínum vilja framgengt að þingið samþykki og því eins öðlast lagasamþykktir Alþingis gildi að forsetinn samþykki.  Einnig getur forsetinn rofið þing og efnt til kosninga og Alþingi getur lagt fyrir þjóðaratkvæði að setja forsetann af.

Löggjafarvald forsetans  felst í möguleikum hans til að láta leggja lagafrumvörp fyrir Alþingi.  Hann má hins vegar ekki sjálfur taka þátt í störfum þess eða flytja þar mál, enda stjórnarfarsleg ábyrgð að því leyti ekki í hans höndum.  Það eiga ráðherrar, sem hann skipar hinsvegar að gera.  Á þann hátt eiga þeir að fara með vald hans, - að hans vilja eins og skýrt er kveðið á um.

Skv. stjórnarskránni skipar forsetinn ráðherrana og aðkoma þeirra að löggjafarvaldinu er sú ein að flytja tillögur hans fyrir þingið.  Hann getur vikið þeim og skipað nýja hvenær sem honum þykir tilefni til.

Ekkert er finnanlegt í stjórnarskránni um að forseti fái stjórnmálaflokki sem boðið hefur fram menn til setu á Alþingi umboð til að mynda ríkisstjórn, hvað þá að  framselja vald sitt til slíkra aðila.  Samkvæmt stjórnarskránni er skipun stjórnar eitt veigamesta hlutverk hins þjóðkjörna forseta .

Þegar ákvæði annars kafla stjórnarskrárinnar eru lesinn og staðnæmst við það ákvæði hennar að forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt, er augljóst að skipa á ríkisstjórn í kjölfar forsetakosninga en ekki alþingiskosninga.  Aðgreiningin á að vera alger og þjóðkjörið Alþingi á að sinna störfum sínum óháð þeirri ríkisstjórn sem forsetinn hefur skipað.  Í því felst sá aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds sem mörgum er nú svo ofarlega í huga .

Þegar þessi texti íslensku stjórnarskrárinnar er lesinn er augljóst að það fyrirkomulag stjórnarfars sem hún kveður á um hefur frá öndverðu verið sniðgengið, en þar vegur þyngst að þau ákvæði hennar er varða hlutverk forsetans hafa verið að engu höfð.  Um það hvernig það hefur gerst mætti hafa langt mál.

Stjórnmálaflokkar sem alla tíð hafa tengst sérhagsmunavörslu í samfélaginu hafa þarna mestu ráðið.  Einnig hafa fræðimenn lengi iðkað mikla og oft á tíðum fjarstæðukennda þrætubókarlist í rangtúlkun á skýrum texta stjórnarskrárinnar.

Því miður hefur íslenska þjóðin aldrei haldið þeirri sjálfsögðu kröfu fram að til embættis forseta yrðu kosnir menn sem vilja sýndu til að standa vörð um raunverulegt hlutverk hans.  Afleiðingin er sú að í stað þess lýðveldisfyrirkomulags og lýðræðis sem stjórnarskráin kveður á um og tryggir svo ágætlega hefur einræði stjórnmálaflokka verið innleitt á Íslandi og valdabarátta þeirra í milli og innan þeirra komið í stað lýðræðis, með stórskaða fyrir samfélagið allt.

Að þessu leyti hefur stjórnarfarskreppa því varað á Íslandi allan lýðveldistímann.  Þær hættur sem í því felast eru margar og augljósar og hafa það sem af er nýrri öld birst þjóðinni í áþreifanlegri mynd.  Vert er því að hugleiða hvort þau óheillaspor sem stigin hafa verið í íslenskum stjórnmálum á lýðveldistímanum sem mestu hafa ráðið til hins verra hefðu verið færri ef stjórnarfarskafli stjórnarskrárinnar hefði verið í heiðri hafður.

Flestir eru að verða samála um að endurskoða þurfi íslensku stjórnarskrána eða semja nýja og styðja jafnvel þá skoðun sína með vísun í hrun bankanna árið 2008.  Nauðsynlegt er að þeir sem á þeirri skoðun eru skýri þá tengingu til hlítar og þá um leið að hvaða leyti stjórnarfarið í landinu hefur ekki verið í samræmi stjórnarskrána eða í hverju henni sé áfátt.

Á Þorra 2011 Ámundi Loftsson   ( Birt á Smugunni)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband