Af því að mér þykir vænt um þig Steingrímur...Opið bréf til fjármálaráðherra

Sæll Steingrímur!

Einsog þú veist hef ég þann djöful að draga að skipta mér af nánast öllu í mannlegu samfélagi.  Svo er Guði þó fyrir að þakka að þetta er kvilli sem þú ert blessunarlega laus við.  Ástæðu þess að ég sendi þér þessar línur er að rekja til þess að Ríkisendurskoðun sendi mér áminningu um að ég gerði grein fyrir útlögðum kostnaði vegna þess uppátækis að ég bauð mig fram til stjórnlagaþings.  Flónið ég gekk sem sagt með þær grillur að ég gæti lagt eitthvað til þeirra mála að gera stjórnarfarið í landinu betra.  Löngum verið vitlaus.

Þar sem allur heimurinn veit að þessar kosningar mistókust og voru dæmdar ólöglegar getur sá eini tilgangur vakað fyrir Ríkisendurskoðun að reyna að henda reiður á hvað frambjóðendur lögðu í mikinn kostnað í þessa ósvinnu svo unnt verði að endurgreiða þeim það sem þeim réttilega ber.  Enginn fer vísvitandi út ólögmætar kosningar.

Við þessa eftirgrennslan Ríkisendurskoðunar rifjaðist svo upp fyrir mér nokkuð sem upp kom þegar þú varst landbúnaðarráðherra, en það var sú tæra snilld þín að láta lögregluna telja allan búsmala í landinu.  Nú skyldi mönnum haldið við efnið, ekkert svindl, engin undanbrögð, þú varst kominn.Andrés heitinn á Kvíabekk í Ólafsfirði sendi þér opið bréf sem birt var í dagblaðinu Degi á Akureyri á vordögum 1989 og lofaði mjög þessa stjórnvisku þína.  Andrés var magnaður náungi, skemmtilegur penni og annálaður hestamaður.  Alltaf koma hendingarnar upp í hugann þegar Andrés á Bekk rekur á fjörur minninganna þar sem Einar Ben kveður um hvarf séra Odds.

Hleypir skeiði hörðu

halur yfir ísa

glymja járn við jörðu

jakar í spori rísa.

Hátt slær nösum hvæstum

hestur í veðri geystu.

Gjósta af hjalli hæstum

hvín í faxi reistu.

Þeir sem lesa vilja bréf Andrésar geta séð það hérna.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=208144&pageId=2687065&lang=is&q 

Reyndar man ég nú ekki lengur alveg hvað fyrir þér vakti með þessari talningu á búfénu í landinu Steingrímur og mættum við alveg rifja það upp við tækifæri.  Þó man ég að einhverjir leiðindapúkar höfðu uppi lítt grunduð hnjóðsyrði um þig út af þessu og þó óþarfi sé, tek ég fram að ég var ekki í þeim hópi.

Já Steingrímur nú ertu loksins kominn í ríkisstjórn aftur eftir um tveggja áratuga heimssögulega óstjórn verstu spillingarafla íslandssögunnar.  Tími var til.  Alltaf er þó sama fýlan í mannskapnum og meira að segja ég er ófáanlegur til að samþykkja að þjóðin borgi icesave.  Að mínu viti er þetta óupplýst sakamál sem þarf að komast til botns í áður en það verður gert upp.  Svona er ég vitlaus.  Verst ef elskan hún Svandís okkar geldur fyrir frumhlaup föður síns í þessu andstyggðarmáli. 

En af því að ég minnist hér aðeins á hann Svavar okkar, þá er mér alltaf svo minnisstætt þegar þið tveir komuð í hlaðið á gamla bænum mínum norður í landi fyrir um aldarfjórðungi til að heilsa uppá aldraðan tengdaföður minn.  Þetta er í raun eini sólskinsdagurinn í minningu minni um búskapartíð mína í Þingeyjarsýslu.

Ég hitti gamla konu um daginn Steingrímur sem sagði mér að sá dagur nálgaðist að hún gæti ekki borgað húsaleiguna sína.  Ævisparnaðurinn yrði uppurinn fyrir mitt sumar og hún vissi ekki hvernig hún ætti að fara að.  Þrátt fyrir að hún er af virtum embættismannaættum var á henni kvíðasvipur.  Ekki gat ég annað sagt henni en að kvíða ekki neinu, við byggjum við það sem kallað er „norræn velferð" og í henni væri okkur öllum borgið.  Samt var gamla konan tortryggin og úr svip hennar mátti ráða að ég hefði ekki verið alveg hreinskilinn við hana.  Mér var nú reyndar hugsað hvað hún hefði við sparnað að gera komin að níræðu.  En svona getur fólk nú látið. 

Ég borða stundum hjá veitingamanni sem selur hversdagslegan mat í hádeginu og rekur auk þess veisluþjónustu. Þetta eru aðallega erfidrykkjur, því svo blessunarlega vill til að allir deyja á endanum og sumir meira að segja full seint.  Halldór Laxness segir á einum stað frá konu sem gekk svo illa að deyja að á endanum varð að hvolfa yfir hana potti, en þetta er nú útúrdúr.  En, sem sagt, hann vinur minn sem ég borða stundum hjá í hádeginu segir mér að þessi rekstur sé að verða búinn að éta upp allar hans eigur, húsið, þokkalegan bíl, hann er á hálfgerðum skrjóð núna,  hann er búinn að segja upp starfsfólkinu að mestu, sem nú er komið á bætur hjá ykkur Jóhönnu og vinnur svo sjálfur milli 60 og 80 tíma á viku.  En þetta er ekki allt Steingrímur.  Maturinn hjá honum er svo dýr að ég get ekki borgað hann og félagar mínir ekki heldur.  Hann kostar 1400 krónur.  Þetta er uppundir 30 þúsund á mánuði á virkum dögum, bara fyrir hádegismat. 

Þegar ég fór svo að pumpa kallinn um hvað réði, fór hann strax að kvarta undan þér.  Bölvað meinhornið.  Það væru skattar og vextir og svo væri hráefnið líka alveg ferlaga dýrt.  Ég féll strax í meðvirkni bara til að gera honum til geðs og fór  að þusa um búvöruna.  Hélt því fram að þriðja hver króna í búvöruverði væri bein afleiðing af kvótakerfinu.  Bændur væru búnir að kaupa kvóta svo dýru verði að nær allur ríkisstuðningurinn við landbúnaðinn færi í þetta.  Sama væri með fiskinn uppistaðan í verði á fiski væri vegna kaupa á veiðiheimildum.  Þetta væri auk þess meira og minn allt í skuld og væri því lítið annað en beinn fjármagnskostnaður.  Nú væri þetta búið að éta af veitingamanninum vini mínum allar hans eigur, hneppa hann í þrældóm og gera matinn svo dýran að enginn gæti keypt hann.  Svona geta menn verið vitlausir Steingrímur. 

Hann Jón Bjarnason ráðherra er lunkinn karl sem hefur áttirnar.  Ég bíð spenntur eftir ráðum hans um kvótakerfin.  Hann ætlar að banna bændunum vestur í Dölum að selja mjólk utan kvóta.  Mikið helvíti er kallinn klár.  Hitt er enn útí þokunni hvernig hann tæklar fiskveiðikvótann.  Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af Jóni,  hann kemur örugglega standandi niður úr öllu þessu með eitthvað gott.  Vertu sko alveg viss.  

Svo gerðist eitt um daginn Steingrímur sem ég hika þó aðeins við að segja þér frá.  Það blundar nefnilega í mér einhver óhræsis púki.  Í syndsamlegu hugarfari fór ég að eiga samskipti við fólk á einkamal.is og sannaðist þá það sem gamall bóndi austur í sveitum sagði einu sinni „ að það er margur sauður í mörgu fé" Ja sussubía.  Ég segi þér kannski einhvertíma meira af því undir fjögur augu.  En þarna vissi ég ekki fyrr en ég var kominn í samband við einstæða móður sem var búin að fara með öll sín fjárhagsvandræði til umboðsmanns skuldara.  Þar rakti hún allar sínar fjárhagsaðstæður.  Þetta er hófsöm kona og lifir spart.  Hún fékk þó ekki betri úrlausn sinna mála en svo að þarna var hún komin til að freista þess að ná endum saman, sem sagt inná einkamal.is. 

Mér leið svo illa með þetta í byrjun Steingrímur að ég fékk kökk í hálsinn og ég fór að reyna að ná í vinkonur okkar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði til að fá hjá þeim ráð um samskipti mín við þessa konu og hvað við gætum lagt henni gott til mála til að líf hennar yrði alla vega ekki lakara en okkar.  En nú brugðust krosstrén, þarna urðu stóru vonbrigðin.  Það mátti engin þeirra vera að því að tala um þetta við mig utan ein úr Hafnarfirði.  Hún er vinur minn.  Mikið er nú veröldin yndisleg Steingrímur.  Finnst þér ekki? 

Ég fer nú að stytta mál mitt í þessu bréfi enda er ég alveg rólegur því að ég veit að þú ert á réttri leið í úrlausn allra mála.  Það eru bara ekki nógu margir sem koma auga á hvað þú ert mikið séní.  En við því er lítið að gera, þetta rennur upp fyrir þeim einn daginn.  Með einu get ég þó glatt þig svona alveg í blálokin.  Ég er kominn til að vera í Vinstri grænum.  Þar mun ég ekki svíkja þig Steingrímur.  Ég lít svo við á kontórnum hjá þér fljótlega þegar þeir hjá Ríkisendurskoðun verða búnir að átta sig á hvað ég á fá mikið endurgreitt út af þessu kosningabulli útaf stjórnlagaþinginu og gríp þessar krónur, ég veit að þær eru þér ekki fastar í hendi.

Nesjavöllum á útáliðnum einmánuði 2011.

Vertu nú best kvaddur, þinn aðdáandi, Ámundi Loftsson.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband