Árið 2009 skrifaði ég grein um sifjaspell sem birt var í Morgunblaðinu. Tilefnið var umræða um málefnið sem mér þótti heldur einhliða.

Hugleiðingum kynferðisofbeldi gagnvart börnum

Sifjaspell eru einhver dapurlegasta skuggahlið samfélagsins. Þótt þau séu fyrst og fremst ógæfa þeirra sem fyrir þeim verða eru þau ekki síður samfélagslegt vandamál og viðfangsefni sem lengi var vanrækt. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist undanfarin ár er stefnumörkun stjórnvalda hægfara og margt ógert. Það starf sem unnið er á þessu sviði er að mestu viðureign við afleiðingar. Fyrirbyggjandi starf þarf því að efla til mikilla muna.

Skilningur á sifjaspellum og alvarleika þeirra hefur færst verulega nær raunveruleikanum á liðnum árum og rang hugmyndir fyrri tíma og viðteknar klisjur hafa hver af annarri fallið. Því ætti aðvera nægur vilji að koma nýrri stefnumótun í framkvæmd. Engu er þó líkara en samfélag nútímans sé í kyrrstöðu í þessum efnum, einhverskonar tóma rúmi þess sem hefur náð áttum, en ekki tekið ákveðna stefnu. Hana verður tafarlaust að marka og hrinda í framkvæmd.

Rjúfa verður þá þögn og þá bannhelgi sem grúfir yfir þessu, því miður, útbreidda ofbeldi og yfirstíga þær hindranir sem koma í veg fyrir opna umræðu. Hér eru í húfi þvílíkir hagsmunir, að feimnislaus, opinská og hreinskilin umræða er samfélaginu nauðsynleg. Hagsmunir barna, sem ekki geta varið sig fyrir misgjörðum sem þau eru beitt, misgjörðum sem setja varanlegt mark á þau.

Það er ekki nóg að refsa fyrir þau brot sem framin eru. Löggjafinn og samfélagið verður að gera það sem unnt er til að koma í veg fyrir að þau eigi sér stað. Kjörnir fulltrúar verða því að hefja sig upp yfir alla flokka hagsmuni og vinna sem ein heild að löggjöf um markvissa uppfræðslu í þessum málum meðal þeirra sem annast börn, með forvarnir í fyrirrúmi. Börn verði einnig frædd um þessi mál eins og fært er. Slíkri löggjöf verður að hrinda í framkvæmd umsvifalaust.

Ekkert getur réttlætt aðgerðaleysi og þögn um verstu afbrot sem framin eru í samfélaginu, afbrot sem börn í sakleysi og þroskaleysi geta ekki varið sig fyrir. Aðgerðaleysi og þögn vegna þess eins að okkur þykir óþægilegt að horfast í augu við þann hrylling sem kynferðisofbeldi gagnvart börnum er.

Er það skaðlegt eða hættulegt að tala um að til eru feður, afar, frændur og fjölskylduvinir sem misnota börn kynferðislega? Má ekki tala um það sem allir vita að er veruleiki ? Hvað er í veginum ? Er skömmin á þessum málum yfirsterkari viljanum til aðgera það sem í valdi okkar stendur til að uppræta meinið ? Hugleiðum þessar spurningar. - Svörum þeim.

14.janúar 2009

Ámundi Loftsson

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband