Fjárlögin fjölmiðlarnir og stjórnarskráin

Mikill spuni fór af stað í fjölmiðlum þegar þrír kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga greiddu atkvæði um fjárlög í samræmi við sannfæringu sína. 

Fréttamönnum og einstaka ráðherrum þykir þetta ill tíðindi og fara mikinn um að þremenningarnir hafi sem stjórnarliðar brugðist skyldum sínum gagnvart ríkisstjórninni.

Sem aðilar í meirihlutasamstarfi ríkisstjórnarflokkanna hafi þau stefnt landstjórninni í mikla óvissu.  Ekki sé nein hefð fyrir öðru en að stjórnarliðar styðji fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar.  Því sé ríkistjórnarmeirihlutinn tæplega lengur til staðar. 

Forsætisráðherra segir þremenningana hafa vikið sér undan ábyrgð og lagt hana á herðar annarra stjórnarliða.  Öll orðræða þeirra um kröfuhörku um hlýðni og undirgefni við formenn stjórnarflokkanna sé bull.   

Allt vekur þetta upphlaup fjölmiðla og ráðherra spurningar um þau grundvallaratriði stjórnarfars sem öðru fremur byggir á að lýðræðislega kjörnir fulltrúar fari í hvívetna eftir sannfæringu sinni við afgreiðslu mála.

Orðið „ríkisstjórn“ er reyndar ekki að finna í stjórnarskránni en í fyrstu grein hennar segir einungis að á Íslandi sé þingbundin stjórn.  Hvergi er þar að finna hugtök einsog stjórnarmyndunarumboð, ríkistjórnarmeirihluti, stjórnarflokkur, meirihlutasamstarf, stjórnarliði eða stjórnarandstaða.

Öll eru þessi hugtök sprottin uppúr venjuhelguðu stjórnarfari sem þjóðin hefur nú fengið nóg af, fyrir fullt og allt.   Því væri ekki úr vegi að gera uppkast af stjórnskipun, þar sem framangreind hugtök fengju sinn sess og koma henni fyrir almenningsjónir.  Það rynni þá kannski upp fyrir mönnum í hvílíku rugli stjórnarfar á íslandi er og hefur lengi verið. 

Með þingbundinni stjórn getur vart verið átt við annað en að stjórn ríkisins sé bundin af ákvörðunum þingsins þ.e. lagasetningum og löglegum samþykktum þess. 

 

Þá er þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi uppálagt með ákvæði í stjórnarskránni að fara í öllu eftir sannfæringu sinni og engu öðru. Þetta er þungamiðja þess lýðræðisskipulags sem stjórnarskráin á að tryggja, - sem hún og gerir svo fremi að hún sé haldin.

Hvergi er neitt um það að finna í stjórnarskránni að stjórnmálaflokkur sem fengið hefur menn kjörna á Alþingi fái umboð forseta til að mynda ríkisstjórn með fyrirfram tryggðum meirihluta kjörinna fulltrúa Alþingis í öllum málum.

Slíkt fyrirkomulag snérist í raun ekki um annað en samsæri um valdarán sem byggði á því öllu öðru fremur að kjörnir fulltrúar færu ekki að sannfæringu sinni.  Þar með er fyrirfram ákveðinn minnihluti einnig rændur völdum og áhrifum í þeim verkefnum sem hann var þó kjörinn til að sinna.

Sú hefð sem skapast hefur um ríkistjórnarvald hér á Íslandi og örugglega víðar er því hefð um sjálftekið vald.

Er það þesskonar stjórnarfar sem rótgrónir fréttahaukar eru nú að ákalla og biðja um?  Munu þeir liggja á bæn úti fyrir dyrum komandi stjórnlagaþings með ákall um óbreytta stjórnarhætti á Íslandi?   Er það krafa þjóðarinnar eftir hrunið?

Það er illt að þeir þingmenn sem dug í sér hafa til að ganga gegn ofríki hins sjálftekna valds og fara að sannfæringu sinni, svo sem varð við afgreiðslu fjárlaga, skuli þurfa fyrir vikið að sitja undir vanhugsuðum og heimskulegum ákúrum og dylgjum fréttamanna um svik, undanbrögð og ábyrgðarleysi.

Með þesskonar háttsemi mæla fjölmiðlar einungis drottnunargirnina enn meira upp í pólitískum foringjum ríkisstjórnarflokkanna,  sem var þó ærin fyrir.

Ámundi Loftsson       (Birt í Mbl.  22. des. 2010)

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband