Áskorun á Lilju Mósesdóttur

Sæl Lilja og ágætu VG félagar.

Þegar áföll dynja á okkur mönnunum kemur í ljós hvers við erum megnugir.  Þetta þekkjum við Íslendingar.  Sambúð okkar við óvægin náttúruöfl hefur alltaf þjappað okkur saman og öll höfum við lagt metnað okkar í að létta hvert öðru róðurinn gegnum þá erfiðleika sem á okkur hafa dunið, þar til nú.  Nú er öldin önnur.

Við bankahrunið 2008 þjappaði þjóðin sér saman og hrakti með friðsömum hætti frá völdum ríkisstjórn sem öðru fremur bar pólitíska ábyrgð á þeirri stöðu sem upp var komin.

Krafan um uppgjör við þann blekkingaleik sem komið hafði okkur í mesta vanda sem á okkur hefur dunið bergmálaði um allt samfélagið.  Einnig krafan um að leiðrétta þær ósanngjörnu og þungbæru afleiðingar sem hrunið hafði í för með sér fyrir almenning og að fyrirbyggja að sagan endurtæki sig.

Í grein sem Kári Þorgrímsson í Garði í Mývatnssveit skrifaði skömmu eftir hrunið kemst hann svo að orði  „Menntunarstig Íslendinga er miklu hærra en svo að þeim hafi ekki mátt ljóst vera hvað leiða myndi af einkavæðingu bankanna, ofurvöxtum eða aðild landsins af frjálsu flæði fjármagns milli landa svo dæmi séu tekin. Gjaldþrotið og stærð þess er afleiðing slíkra ákvarðana.  Kreppan er hagkerfið sjálft."

Og nú tóku flokkar alþýðunnar við völdum á Íslandi og væntingar til þeirra voru miklar.   Víglína búsáhaldabyltingarinnar var gjáin milli þings og þjóðar, almennings á Íslandi og þeirra sem með völdin höfðu farið.  Þessari gjá skildi nú eytt og teknir upp breyttir stjórnarhættir, byggðir á nýju gildismati.

Nú rúmlega tveim árum síðar situr þjóðin í myrkri lyga, svika og blekkinga.  Í stað þess að standa með fólkinu í þeim erfiðleikum sem af hruninu leiddi hefur ríkistjórn Íslands, ríkisstjórn alþýðunnar, félagshyggjufólksins og launþeganna á Íslandi bundið fyrir augu og eyru og gengið peningaöflum á hönd, ekki bara hér á Íslandi, heldur hvar sem þau er að finna.  Ef það er afrakstur byltingarinnar var verr í hana farið en heima setið.

Í stjórnatíð okkar hafa fleiri misst aleigu sína en nokkru sinni fyrr.  Þar hafa sýslumenn dyggilega gengið erinda óvæginna bankastofnana með þegjandi samþykki ríkisstjórnarinnar og fengið smámennsku sinni og valdafíkn fullnægt með þeirri áníðslu að selja húseignir ofan af því fólki sem hefur verið svikið um sjálfsagða leiðréttingu mála sinna.  Aldrei hafa fleiri þurft að leita ásjár hjálparstofnana  í neyð sinni en nú.  Áratugir eru síðan heyrist hefur talað um sult á Íslandi þar til nú, í stjórnartíð okkar, að fólk í landinu okkar hafi ekki nóg að borða og aldrei hefur nokkur ríkisstjórn á Íslandi orðið jafn gersamlega viðskila við þjóðina og sú sem nú er við völd.  Er þetta sú ríkisstjórn sem við vildum og það  Ísland sem við ágætu félagar í V G viljum láta kenna okkur við?  Hver ertu þá, félagi minn í V G?  Þá þekki ég þig ekki.

Ég beini því orðum mínum til félaga í Vinstri hreyfingunni grænu framboði sem illa eru ósáttir við störf eða öllu heldur aðgerðaleysi þeirrar ríkisstjórnar sem við öðrum fremur berum ábyrgð á og einnig hinna sem yfirgefið hafa flokk okkar.  Við eigum leik.  Svo vel vill til að í okkar röðum er fólk sem ekki lætur villa sér sýn og afvegaleiða sig. Þú, Lilja Mósesdóttir ferð þar fremst meðal jafningja.  Aldrei hefur samstaða þín með fólkinu í landinu bilað.  Alltaf ertu trú samvisku þinni og talar máli alþýðunnar um hvað nauðsynlegt og unnt er að gera til að leiðrétta og lágmarka þann skaða sem almenningur varð fyrir í hruninu.

Lilja og ágætu VG félagar: Komið aftur.  Mætum öll á landsfund VG á Akureyri nú í haust og gerum Lilju Mósesdóttur að foringja okkar og leiðtoga og mörkum um leið skýra pólitíska stefnu fyrir fólkið í landinu okkar.  Taktu þessari áskorun Lilja og gefðu kost á þér að leiða samtök okkar.  Annars munu þau liðast sundur og verða áhrifalaus íslensku samfélagi.  Það er niðurstaða sem við getum ekki sætt okkur við.  Gerðu upp hug þinn félagi.

 

Nesjavöllum í lok sumars 2011, Ámundi Loftsson.

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband