Fellum Icesavesamninginn

Ríkisstjórn Íslands telur það forgangsverkefni að tryggja hag fjármagnseigenda hvar sem þeir finnast og er icesave-málið skýrasta birtingarmynd þeirrar stefnu.  Forseti Íslands er eina virka viðnámið gegn stefnu þessari.  Steingrímur J. Sigfússon hefur kastað grímunni.  Hann vill að málskotsrétturinn verði tekinn af forsetanum.  Steingrímur höndlar ekki lýðræðið, hann talar skýrt.  Hann vill völd hinna fáu. 

Þjóðin verður að koma frá völdum þeim öflum sem vinna að því einu að hneppa hana í fjötra, örbyrgðar, skulda og fáræðis.  Öflum sem sýna þjóðinni sjónhverfingar til lausnar þeirrar stöðu sem bankahrunið 2008 bakaði skuldugu fólki á Íslandi.  Sífellt kemur fleira fram í dagsljósið sem bendir til þess að Icesave-málið í heild sinni sé fremur sakamál en gjaldþrot.  Þess vegna hlýtur það að vera skýlaus krafa að með það skuli farið eins og venja er um slík mál.

Að íslenskir skattgreiðendur beri tjón sem stjórnendur banka í einkaeigu bökuðu Bretum og Hollendingum eru því viðurlög á hendur almenningi í óupplýstu sakamáli sem hann á ekki aðild að og ber enga ábyrgð á.Icesave-samningurinn á upphaf sitt í neyðarlögunum frá árinu 2008 þar sem bankainnstæður í föllnum bönkum voru tryggðar og fjármagnaðar af almenningi.  Samningurinn er því til kominn vegna þessara innstæðna og ef einhverjir ættu að borga fyrir afleiðingarnar af þessu icesave-ævintýri, væru það þeir sem neyðarlögin björguðu.

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis bendir einnig á að þessi aðgerð hafi fyrst og fremst  verið til að tryggja háar innstæður lítils hluta fjármagnseigenda, peningaelítunnar á Íslandi sem átti bróðurpart innistæðna sem glötuðust við hrunið og ekki hafði verið komið undan.  Icesave-samninginn er ótvíræð pólitísk viðurkenning á að einkarekna bankastarfsemi skuli reka á ábyrgð skattgreiðenda.

Við, íslenskur almenningur, þegnar þjóðfélagsins sættumst því aðeins á að greiða skatta að þeir standi undir útgjöldum af sameiginlegum þörfum okkar. Við greiðum skatta til að halda uppi samfélagi, en ekki ofvöxnu gerspilltu fjármalakerfi.  Það er fullkomið brjálæði og ögrun við heilbrigða skynsemi og siðferði að ráðstafa skattfé okkar á þann hátt sem Icesave-samningurinn gerir ráð fyrir á sama tíma og Landspítalinn, höfuðvígi heilbrigðiskerfis okkar þarf að þiggja ölmusur til að geta sinnt lögboðnum skyldum sínum og öll samneysla okkar, sama hvaða heiti hefur, er skorin niður inn að beini. 

Með samþykki icesave-samningsins yrði einnig innsiglað það aðhalds- og ábyrgðarleysi sem öllu öðru fremur hefur leitt af sér ríkjandi aðstæður í fjármálastarfsemi á Íslandi.  Ruglið héldi óbeislað áfram á ábyrgð og kostnað almennings.  Þess vegna eru réttarhöld í icesave-málinu er það eina sem til greina kemur.  Að því hníga öll rök, jafnt pólitísk, lagaleg, hagfræðileg og siðferðisleg.

 Að bera á borð fyrir okkur, fólkið í landinu að okkur beri siðferðisleg skylda til að taka á okkur rangar sakir og byrgðar þessa samnings til að viðhalda flekklausu orðspori í samfélagi þjóðanna og taka á okkur himinháar fjárskuldbindingar til að greiða okkur leið í enn meiri skuldir, ber vott um verulega skerta dómgreind og brenglaða siðferðisvitund, eru himinhrópandi öfugmæli.  Við eigum sem sagt að taka á okkur rangar sakir til að bjarga heiðri okkar, að óttast svo sannleikann að öllu skuli fórna til að forða því að hann komi í ljós, að rétt niðurstaða fáist.  Er það þjóðfélagsleg reisn?

Er nú ekki kominn tími til að hugsa þetta mál ögn betur? Í stað þess að óttast réttarhöld í þessu máli skulum við krefjast þeirra.  Þá verður það krufið til mergjar og allur sannleikur þess leiddur í ljós.  Þess eigum við að krefjast af heilum hug.  Ein af meginkröfum búsáhaldabyltingar var að upplýsa það sukk sem orsakaði hrunið og að komið yrði höndum í hár þeirra sem ábyrgð bera á þessu mesta klandri í sögu þjóðarinnar.  Fylgjum því eftir og fellum Icesave-samninginn. Birt í Mb.

Laugardaginn 26. feb. 2011    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband