STJÓRNARSKRÁIN OG FORSETINN

Þegar íslenska stjórnarskráin er lesin og borin saman stjórnarfarið í landinu stingur margt í augu.  Hvað skipan ríkisvaldsins varðar er stjórnarskráin skýr.  Forseti og Alþingi fara saman með löggjafarvaldið en forsetinn ásamt öðrum stjórnvöldum með framkvæmdavaldið.

Skv. stjórnarskránni er löggjafarvaldið þannig í höndum forseta og Alþingis að því aðeins fær forsetinn sínum vilja framgengt að þingið samþykki og því eins öðlast lagasamþykktir Alþingis gildi að forsetinn samþykki.  Einnig getur forsetinn rofið þing og efnt til kosninga og Alþingi getur lagt fyrir þjóðaratkvæði að setja forsetann af.

Löggjafarvald forsetans  felst í möguleikum hans til að láta leggja lagafrumvörp fyrir Alþingi.  Hann má hins vegar ekki sjálfur taka þátt í störfum þess eða flytja þar mál, enda stjórnarfarsleg ábyrgð að því leyti ekki í hans höndum.  Það eiga ráðherrar, sem hann skipar hinsvegar að gera.  Á þann hátt eiga þeir að fara með vald hans, - að hans vilja eins og skýrt er kveðið á um.

Skv. stjórnarskránni skipar forsetinn ráðherrana og aðkoma þeirra að löggjafarvaldinu er sú ein að flytja tillögur hans fyrir þingið.  Hann getur vikið þeim og skipað nýja hvenær sem honum þykir tilefni til.

Ekkert er finnanlegt í stjórnarskránni um að forseti fái stjórnmálaflokki sem boðið hefur fram menn til setu á Alþingi umboð til að mynda ríkisstjórn, hvað þá að  framselja vald sitt til slíkra aðila.  Samkvæmt stjórnarskránni er skipun stjórnar eitt veigamesta hlutverk hins þjóðkjörna forseta .

Þegar ákvæði annars kafla stjórnarskrárinnar eru lesinn og staðnæmst við það ákvæði hennar að forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt, er augljóst að skipa á ríkisstjórn í kjölfar forsetakosninga en ekki alþingiskosninga.  Aðgreiningin á að vera alger og þjóðkjörið Alþingi á að sinna störfum sínum óháð þeirri ríkisstjórn sem forsetinn hefur skipað.  Í því felst sá aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds sem mörgum er nú svo ofarlega í huga .

Þegar þessi texti íslensku stjórnarskrárinnar er lesinn er augljóst að það fyrirkomulag stjórnarfars sem hún kveður á um hefur frá öndverðu verið sniðgengið, en þar vegur þyngst að þau ákvæði hennar er varða hlutverk forsetans hafa verið að engu höfð.  Um það hvernig það hefur gerst mætti hafa langt mál.

Stjórnmálaflokkar sem alla tíð hafa tengst sérhagsmunavörslu í samfélaginu hafa þarna mestu ráðið.  Einnig hafa fræðimenn lengi iðkað mikla og oft á tíðum fjarstæðukennda þrætubókarlist í rangtúlkun á skýrum texta stjórnarskrárinnar.

Því miður hefur íslenska þjóðin aldrei haldið þeirri sjálfsögðu kröfu fram að til embættis forseta yrðu kosnir menn sem vilja sýndu til að standa vörð um raunverulegt hlutverk hans.  Afleiðingin er sú að í stað þess lýðveldisfyrirkomulags og lýðræðis sem stjórnarskráin kveður á um og tryggir svo ágætlega hefur einræði stjórnmálaflokka verið innleitt á Íslandi og valdabarátta þeirra í milli og innan þeirra komið í stað lýðræðis, með stórskaða fyrir samfélagið allt.

Að þessu leyti hefur stjórnarfarskreppa því varað á Íslandi allan lýðveldistímann.  Þær hættur sem í því felast eru margar og augljósar og hafa það sem af er nýrri öld birst þjóðinni í áþreifanlegri mynd.  Vert er því að hugleiða hvort þau óheillaspor sem stigin hafa verið í íslenskum stjórnmálum á lýðveldistímanum sem mestu hafa ráðið til hins verra hefðu verið færri ef stjórnarfarskafli stjórnarskrárinnar hefði verið í heiðri hafður.

Flestir eru að verða samála um að endurskoða þurfi íslensku stjórnarskrána eða semja nýja og styðja jafnvel þá skoðun sína með vísun í hrun bankanna árið 2008.  Nauðsynlegt er að þeir sem á þeirri skoðun eru skýri þá tengingu til hlítar og þá um leið að hvaða leyti stjórnarfarið í landinu hefur ekki verið í samræmi stjórnarskrána eða í hverju henni sé áfátt.

Á Þorra 2011 Ámundi Loftsson   ( Birt á Smugunni)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband