Sunnudagur, 30. janúar 2011
KJÓSUM AFTUR
Krafan um að almenningur verði varinn fyrir fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins hefur illa náð fram að ganga, nema fyrir þá sem áttu peninga inní bönkum. Það litla sem hefur áunnist fyrir hina skuldugu hefur kostað hatrömm átök við núverandi ríkisstjórn. Sár fátækt er líka ört vaxandi vandamál nú á dögum velferðarstjórnar okkar vinstri manna. Þessu skyldi kokhraustur forsætisráðherra okkar ekki gleyma.
Sú hugmynd sem fram hefur komið í ríkisstjórn og víðar að Alþingi skipi þá sem ólögmætu kjöri náðu á stjórnlagaþing, í nefnd sem hefði mótun tillagna um breytta stjórnarskrá á hendi, er afspyrnu vond. Hún er afleit vegna þess að með henni er gert lítið úr niðurstöðu Hæstaréttar. Kosningarnar eru ólögmætar og þeir sem kjöri í þeim náðu umboðslausir. Skipun þeirra í slíka nefnd væri því blessun Alþingis á lögleysunni. Hver vill að lesið verði í sögubókum framtíðar um slíka ósvinnu við gerð stjórnarskrár fyrir lýðveldið? Spyrji sig hver og einn.
Við erum komin á byrjunarreit. Það verður að kjósa aftur. Áður en til þess kemur verður að stórauka þjóðfélagsumræðu um stjórnskipunarmál. Þar hafa fjölmiðlar miklu hlutverki að gegna. Skemmst er að minnast viðbragða útvarps allra landsmanna þegar fjöldi frambjóðenda til stjórnlagaþings varð ljós. Stjórnlagaþingið var þar nánast bannorð þar til látið var undan þrýstingi um umfjöllun og kynningu. Það sem R.u.v. síðan gerði var góðra gjalda vert, þó alltof seint og of lítið hafi þar verið um málið fjallað í heild.
Ógilding kosninganna er að sönnu slæmur og kostnaðarsamur skellur. Hann verðum við þó að þola og bæta úr þeim annmörkum sem á framkvæmd þeirra voru og kjósa síðan aftur. Ef við drögum rökréttan lærdóm af þeim mistökum sem hér hafa orðið getum við gert hina endanlegu niðurstöðu glæsilaga. Til að svo megi verða þarf að örva umræðu og þar með vitund og skilning á mikilvægi þess að stjórnarskrá okkar sé bæði skýr og traust, vegna þess að hún er grunnur þess stjórnarfars sem við öll viljum búa við í framtíðinni.
Á Þorra 2011 Ámundi Loftsson (Birt á Smugunni)
Flokkur: Eldri greinar | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.