KJÓSUM AFTUR

Viðbrögð ríkisstjórnar og Alþingis við ógildingu Hæstaréttar á kosningu til stjórnlagaþings eru dæmigerðar um margt.  Einn ráðherranna gerir ekki mikið úr þessari niðurstöðu og segir hana snúast um aukaaðalatriði. Forsætisráðherra hefur lýst því yfir að stjórnlagaþingið verði ekki tekið af þjóðinni, það hafi verið meginkrafa búsáhaldabyltingarinnar.  Rétt er hér í framhjáhlaupi að minna hæstvirtan forsætisráðherra okkar á að meginkröfur byltingarinnar eru fleiri og framar á forgangslistanum.

 Krafan um að almenningur verði varinn fyrir fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins hefur illa náð fram að ganga, nema fyrir þá sem áttu peninga inní bönkum. Það litla sem hefur áunnist fyrir hina skuldugu hefur kostað hatrömm átök við núverandi ríkisstjórn. Sár fátækt er líka ört vaxandi vandamál nú á dögum velferðarstjórnar okkar vinstri manna.  Þessu skyldi kokhraustur forsætisráðherra okkar ekki gleyma.

 Sú hugmynd sem fram hefur komið í ríkisstjórn og víðar að Alþingi skipi þá sem ólögmætu kjöri náðu á stjórnlagaþing, í nefnd sem hefði mótun tillagna um breytta stjórnarskrá á hendi, er afspyrnu vond.  Hún er afleit vegna þess að með henni er gert lítið úr niðurstöðu Hæstaréttar.  Kosningarnar eru ólögmætar og þeir sem kjöri í þeim náðu umboðslausir.  Skipun þeirra í slíka nefnd væri því blessun Alþingis á lögleysunni.   Hver vill að lesið verði í sögubókum framtíðar um slíka ósvinnu við gerð stjórnarskrár fyrir lýðveldið? Spyrji sig hver og einn.

 Við erum komin á byrjunarreit.  Það verður að kjósa aftur.  Áður en til þess kemur verður að stórauka þjóðfélagsumræðu um stjórnskipunarmál. Þar hafa fjölmiðlar miklu hlutverki að gegna.  Skemmst er að minnast viðbragða útvarps allra landsmanna þegar fjöldi frambjóðenda til stjórnlagaþings varð ljós.  Stjórnlagaþingið var þar nánast bannorð þar til látið var undan þrýstingi um umfjöllun og kynningu.  Það sem R.u.v. síðan gerði var góðra gjalda vert, þó alltof seint og of lítið hafi þar verið um málið fjallað í heild.

 Ógilding kosninganna er að sönnu slæmur og kostnaðarsamur skellur.  Hann verðum við þó að þola og bæta úr þeim annmörkum sem á framkvæmd þeirra voru og kjósa síðan aftur.  Ef við drögum rökréttan lærdóm af þeim mistökum sem hér hafa orðið getum við gert hina endanlegu niðurstöðu glæsilaga.  Til að svo megi verða þarf að örva umræðu og þar með vitund og skilning á mikilvægi þess að stjórnarskrá okkar sé bæði skýr og traust, vegna þess að hún er grunnur þess stjórnarfars sem við öll viljum búa við í framtíðinni.

 Á Þorra 2011 Ámundi Loftsson  (Birt á Smugunni)

   


Fjárlögin fjölmiðlarnir og stjórnarskráin

Mikill spuni fór af stað í fjölmiðlum þegar þrír kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga greiddu atkvæði um fjárlög í samræmi við sannfæringu sína. 

Fréttamönnum og einstaka ráðherrum þykir þetta ill tíðindi og fara mikinn um að þremenningarnir hafi sem stjórnarliðar brugðist skyldum sínum gagnvart ríkisstjórninni.

Sem aðilar í meirihlutasamstarfi ríkisstjórnarflokkanna hafi þau stefnt landstjórninni í mikla óvissu.  Ekki sé nein hefð fyrir öðru en að stjórnarliðar styðji fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar.  Því sé ríkistjórnarmeirihlutinn tæplega lengur til staðar. 

Forsætisráðherra segir þremenningana hafa vikið sér undan ábyrgð og lagt hana á herðar annarra stjórnarliða.  Öll orðræða þeirra um kröfuhörku um hlýðni og undirgefni við formenn stjórnarflokkanna sé bull.   

Allt vekur þetta upphlaup fjölmiðla og ráðherra spurningar um þau grundvallaratriði stjórnarfars sem öðru fremur byggir á að lýðræðislega kjörnir fulltrúar fari í hvívetna eftir sannfæringu sinni við afgreiðslu mála.

Orðið „ríkisstjórn“ er reyndar ekki að finna í stjórnarskránni en í fyrstu grein hennar segir einungis að á Íslandi sé þingbundin stjórn.  Hvergi er þar að finna hugtök einsog stjórnarmyndunarumboð, ríkistjórnarmeirihluti, stjórnarflokkur, meirihlutasamstarf, stjórnarliði eða stjórnarandstaða.

Öll eru þessi hugtök sprottin uppúr venjuhelguðu stjórnarfari sem þjóðin hefur nú fengið nóg af, fyrir fullt og allt.   Því væri ekki úr vegi að gera uppkast af stjórnskipun, þar sem framangreind hugtök fengju sinn sess og koma henni fyrir almenningsjónir.  Það rynni þá kannski upp fyrir mönnum í hvílíku rugli stjórnarfar á íslandi er og hefur lengi verið. 

Með þingbundinni stjórn getur vart verið átt við annað en að stjórn ríkisins sé bundin af ákvörðunum þingsins þ.e. lagasetningum og löglegum samþykktum þess. 

 

Þá er þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi uppálagt með ákvæði í stjórnarskránni að fara í öllu eftir sannfæringu sinni og engu öðru. Þetta er þungamiðja þess lýðræðisskipulags sem stjórnarskráin á að tryggja, - sem hún og gerir svo fremi að hún sé haldin.

Hvergi er neitt um það að finna í stjórnarskránni að stjórnmálaflokkur sem fengið hefur menn kjörna á Alþingi fái umboð forseta til að mynda ríkisstjórn með fyrirfram tryggðum meirihluta kjörinna fulltrúa Alþingis í öllum málum.

Slíkt fyrirkomulag snérist í raun ekki um annað en samsæri um valdarán sem byggði á því öllu öðru fremur að kjörnir fulltrúar færu ekki að sannfæringu sinni.  Þar með er fyrirfram ákveðinn minnihluti einnig rændur völdum og áhrifum í þeim verkefnum sem hann var þó kjörinn til að sinna.

Sú hefð sem skapast hefur um ríkistjórnarvald hér á Íslandi og örugglega víðar er því hefð um sjálftekið vald.

Er það þesskonar stjórnarfar sem rótgrónir fréttahaukar eru nú að ákalla og biðja um?  Munu þeir liggja á bæn úti fyrir dyrum komandi stjórnlagaþings með ákall um óbreytta stjórnarhætti á Íslandi?   Er það krafa þjóðarinnar eftir hrunið?

Það er illt að þeir þingmenn sem dug í sér hafa til að ganga gegn ofríki hins sjálftekna valds og fara að sannfæringu sinni, svo sem varð við afgreiðslu fjárlaga, skuli þurfa fyrir vikið að sitja undir vanhugsuðum og heimskulegum ákúrum og dylgjum fréttamanna um svik, undanbrögð og ábyrgðarleysi.

Með þesskonar háttsemi mæla fjölmiðlar einungis drottnunargirnina enn meira upp í pólitískum foringjum ríkisstjórnarflokkanna,  sem var þó ærin fyrir.

Ámundi Loftsson       (Birt í Mbl.  22. des. 2010)

 

 


Hugleiðing um stjórnarfar.

Öll samfélög byggja á reglum, ýmist helguðum af hefð, skráðum eða óskráðum. Hjá þjóðum semsett hafa sér stjórnarskrá er hún m.a. sá grunnur sem stjórnarfar þeirra er reist á.

Stjórnarskrár innihalda ákvæði um hverjir skuli fara með það vald sem nauðsynlegt er til að tryggja eðlilegan viðgang þess, hver umgjörð valdsins skuli vera og hvernig með það skuli farið.

Nauðsynlegt er að þessar grundvallarreglur séu það einfaldar og skýrar að allir skilji þær og geti gert sér ljóst ef útaf ber með framkvæmd þeirra.

Eitt mikilvægasta verkefni væntanlegs stjórnlagaþings er að skýra betur ákvæði um skipan ríkisvaldsins.

Þar þarf að tryggja betur en nú er að ríkisstjórn sé þingbundin. Reyndin hefur því miður verið hin að ríkistjórnir, leiddar af stjórnmálaflokkum hafa náð ráðandi tökum á Alþingi. Hið kjördæmakjörna Alþingi okkar íslendinga hefur því ekki mátt sín sem skildi fyrir ofríki sitjandi ríkisstjórna.

Forseti lýðveldisins, sem kjörinn er af þjóðinni, hefur heldur ekki verið í reynd sú stoð í valdakerfi okkar sem þurft hefði að vera og stjórnskipun okkar gerir ráð fyrir.

Þeirra sem veljast á stjórnlagaþing bíður því vandasamt verkefni sem felst að minni hyggju að hefja til vegs og virðingar þann stjórnarfarsgrundvöll sem ritaður er stjórnarskrá okkar, að viðbættum ákvæðum til að styrkja stöðu minnihluta Alþingis og almennings gagnvart valdhöfum í landinu.

Stjórnarskrá okkar er skýr, hún er aðgengileg hér á netinu. Ég hvet alla til að lesa hana, íhuga texta hennar vel og, einsog segir í kvæðinu Skilmálar eftirÞorstein Erlingsson „að lesa þar ekkert öfugt gegnum annarra gler"

Ámundi Loftsson


Hugleiðing um hagstjórn.

 Lengi hafa Íslendingar verið áhugasamir um frjálsa samkeppni til að tryggja lágt verðlag á nauðþurftum, allt þar til kemur að verði á húsakosti. þá snúa þeir blaðinu við og hafa ístórum stíl úthýst sjálfum sér með okri, og finnst það fínt. Þegar ríkið kom sér undan veigamiklum samfélagsverkefnum og kom þeim á sveitarfélögin án tekjustofna, urðu fasteignagjöld með helstu tekjustofnum samfélagsins.

Þau eru látin miðast við markaðsverð, þannig að hátt fasteignaverð er orðið að keppikefli sveitarfélaganna. Því meira okur á þessum nauðþurftum, því hærri tekjur fyrir sveitir og borg. Um þetta er pólitísk samstaða og virðist ráðast af væntumþykju við almenning, því viðbrögð vegna fyrirsjáanlegrar lækkunar fasteignaverðs eru eins og búist sé við náttúruhamförum. Talsmenn fasteignasala, Íbúðarlánasjóðs og banka tala um björgunaraðgerðir eins og þjóðinni hafi verið stefnt í voða.

Á sínum tíma setti R- listinn lóðaskort í Reykjavík á uppboð og lóðaverð rauk í himinhæðir. Þetta hækkaði um leið fasteignaverð á öllu höfuðborgarsvæðinu, og fólkið lagði á flótta. - Suður með sjó, austur fyrir fjall og Guð má vita hvert. Flóttafólk fasteigna-okursins ekur svo á kaupleigu bílum til höfuðborgarinnar í vinnu á hverjum degi. Þúsundir arðlausra ársverka fara í akstur með tilheyrandi sóun, mengun og mannfórnum, því tugir farast á þessum ferðalögum, - og nú heimta menn breiðari vegi.

Samfélagsþarfa sem áður var aflað með sköttum er nú tekið gegnum fasteigna okur, fjármagnað með verðtryggðum langtímalánum sem nema sem næst fullu matsverði eigna og eru því oft langt umfram almenn fjárhagsleg þolmörk. Með einkavæðingu ríkisbankanna opnuðust flóðgáttir lánsfjár og eins og þyrsta úlfalda í hita eyðimerkur, þyrsti þjóðina í peninga sem hún gat nú fengið að vild, og hún drekkti sér í skuldum. Hið fullkomna góðæri var komið.

Þetta fé hafa bankarnir að mestu fengið á erlendum skammtímalánum sem nú eru að koma þeim í vandræði, sem aftur verður komið yfir á almenning. Lýðurinn fær svo hæstu vexti í heimi í kaupbæti og verðtryggingu að auki. Þetta fjármagn ber svo uppi stóran hluta hagkerfisins. - Þetta heitir hagstjórn.

Þar sem fasteignaverð fer nú lækkandi þannig að upphæðir tekinna húsnæðislána geta orðið hærri en matsverð, vakna spurningar um verðtryggingu. Hún er eingöngu á íslensku krónunni en ætti að réttu að vera á veðinu líka, þannig að falli veðsett húseign í verði, lækkilánið að sama skapi. Bankarnir tóku ákvörðun um lánveitingar með þessum viðmiðunum og bera því ábyrgð á henni og eiga að taka afleiðinum gerða sinna eins og aðrir ef illa fer.

Allur þessi veruleiki á rót sína í stjórnarstefnu tíunda áratugarins. Hún er gjaldþrota. Hið ábyrðarlausa lána drifna „góðæri" er á enda og fráhvarfið er framundan. Fyrir liggur, að vextir og verðlag mun hækka, vinna dragast saman og skylmingar um launamál munu fara af stað. Kaldhæðnislegast er þó, að nú reynir sá mest að hemja þetta lánasukk sem hratt því af stað fyrir rúmum hálfum öðrum áratug.

En, eitt má ekki klikka, við verðum að koma bönkunum til hjálpar. Aldrei bregðumst við þeim semdeila kjörum með alþýðunni. Ó - nei, við látum það ekkigerast. Enda öruggt að í nýrri þjóðarsátt verða bankarnir með.

Ámundi Loftsson.

Birt í Mbl. í apríl 2007.


Árið 2009 skrifaði ég grein um sifjaspell sem birt var í Morgunblaðinu. Tilefnið var umræða um málefnið sem mér þótti heldur einhliða.

Hugleiðingum kynferðisofbeldi gagnvart börnum

Sifjaspell eru einhver dapurlegasta skuggahlið samfélagsins. Þótt þau séu fyrst og fremst ógæfa þeirra sem fyrir þeim verða eru þau ekki síður samfélagslegt vandamál og viðfangsefni sem lengi var vanrækt. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist undanfarin ár er stefnumörkun stjórnvalda hægfara og margt ógert. Það starf sem unnið er á þessu sviði er að mestu viðureign við afleiðingar. Fyrirbyggjandi starf þarf því að efla til mikilla muna.

Skilningur á sifjaspellum og alvarleika þeirra hefur færst verulega nær raunveruleikanum á liðnum árum og rang hugmyndir fyrri tíma og viðteknar klisjur hafa hver af annarri fallið. Því ætti aðvera nægur vilji að koma nýrri stefnumótun í framkvæmd. Engu er þó líkara en samfélag nútímans sé í kyrrstöðu í þessum efnum, einhverskonar tóma rúmi þess sem hefur náð áttum, en ekki tekið ákveðna stefnu. Hana verður tafarlaust að marka og hrinda í framkvæmd.

Rjúfa verður þá þögn og þá bannhelgi sem grúfir yfir þessu, því miður, útbreidda ofbeldi og yfirstíga þær hindranir sem koma í veg fyrir opna umræðu. Hér eru í húfi þvílíkir hagsmunir, að feimnislaus, opinská og hreinskilin umræða er samfélaginu nauðsynleg. Hagsmunir barna, sem ekki geta varið sig fyrir misgjörðum sem þau eru beitt, misgjörðum sem setja varanlegt mark á þau.

Það er ekki nóg að refsa fyrir þau brot sem framin eru. Löggjafinn og samfélagið verður að gera það sem unnt er til að koma í veg fyrir að þau eigi sér stað. Kjörnir fulltrúar verða því að hefja sig upp yfir alla flokka hagsmuni og vinna sem ein heild að löggjöf um markvissa uppfræðslu í þessum málum meðal þeirra sem annast börn, með forvarnir í fyrirrúmi. Börn verði einnig frædd um þessi mál eins og fært er. Slíkri löggjöf verður að hrinda í framkvæmd umsvifalaust.

Ekkert getur réttlætt aðgerðaleysi og þögn um verstu afbrot sem framin eru í samfélaginu, afbrot sem börn í sakleysi og þroskaleysi geta ekki varið sig fyrir. Aðgerðaleysi og þögn vegna þess eins að okkur þykir óþægilegt að horfast í augu við þann hrylling sem kynferðisofbeldi gagnvart börnum er.

Er það skaðlegt eða hættulegt að tala um að til eru feður, afar, frændur og fjölskylduvinir sem misnota börn kynferðislega? Má ekki tala um það sem allir vita að er veruleiki ? Hvað er í veginum ? Er skömmin á þessum málum yfirsterkari viljanum til aðgera það sem í valdi okkar stendur til að uppræta meinið ? Hugleiðum þessar spurningar. - Svörum þeim.

14.janúar 2009

Ámundi Loftsson

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband